Samkvæmt 22. gr. laga um leikskóla eiga börn, sem þurfa á sérstakri aðstoð og þjálfun, að mati viðurkenndra greiningaraðila, rétt á slíkri þjónustu innan leikskólans.
Ofangreint lagaákvæðið leggur skyldu á herðar leikskólastjóra og skólaþjónustu sveitarfélaga að afla nauðsynlegrar þjónustu fyrir barnið, en í skólaþjónustu felst m.a. stuðningur við leikskólabörn og fjölskyldur þeirra, sbr. 21. gr. sömu laga. Ákvörðun um nauðsynlega þjónustu fyrir barnið skal tekin í samráði við foreldra þess.
Skyldan sem hvílir á fyrrgreindum aðilum nær til þess að afla nauðsynlegrar þjónustu fyrir barnið, hvort sem hún fer fram innan leikskólans eða ekki. Sérstaklega er tekið fram í greinagerðinni með lögunum að umrædd aðstoð og þjálfun geti verið af ýmsu tagi og fer eftir því um hvaða sérþarfir er að ræða í hverju tilfelli. Þar af leiðir séu ýmsir sérfræðingar aðrir en leikskólakennarar sem geta átt í hlut.
Einnig er tekið fram að ákveðnar hindranir geti verið í vegi fyrir leikskóla að veita alla þjónustu sem barn þarfnast innan leikskólans, undirstrikar það skyldu leikskólans að veit þjónustuna utan leikskólans.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 38/2018 um málefni fatlaðs fólk með langvarandi stuðningsþarfir skulu fjölskyldur barna fá nægilega þjónustu til þess að fötluð börn þeirra getið notið réttinda sinna til fulls og jafn við aðra.
Sérstaklega er tekið fram í greinagerðinni með lögunum að ákvæðið sé byggt á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í 3. mgr. 18. gr. Barnasáttmálans er kveðið á um að aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að börn foreldra sem stunda atvinnu fái notið góðs af þjónustu sem þau kunna að eiga rétt á.
Af ofangreindu má leiða að börn foreldra sem stunda atvinnu fái ekki notið góðs af þeirri þjónustu sem þau eiga rétt á, ef þjónustan er háð möguleika foreldris á því að fara með barnið í þjálfunina (sem leikskólinn á að sjá um skv. lögum).
Brotið er á rétti barnsins til viðeigandi þjónustu og brotið er á foreldrum barnsins þar sem þeir hafa ekki sömu tækifæri til að stunda atvinnu líkt og aðrir foreldrar barna sem ekki þurfa að sækja þjálfun á leikskólatíma.
Jafnræðisreglan kveður á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda.