Háaleitisbraut 13, 108 Reykjavík

Símatími 535-1900 | mán – fim frá 9:00-11:00

Um Sjónarhól

Sjónarhóll er óháð ráðgjafarmiðstöð sem vinnur að því að styrkja og efla einstakar fjölskyldur. Hér má lesa um sögu félagsins, ráðgjafa, stjórn og samstarfsaðila. Nánari upplýsingar um þjónustu félagsins má finna á forsíðu.
Seinast uppfært: 2.04.2024
Forsíða 9 Um Sjónarhól

Saga Sjónarhóls

Sjónarhóll er óháð ráðgjafarmiðstöð sem vinnur að því að styrkja og efla einstakar fjölskyldur. Hjá Sjónarhóli geta fjölskyldur fengið aðstoð á ýmsu formi og er þjónusta Sjónarhóls gjaldfrjáls. Sjónarhóll er með skrifstofur á Háaleitisbraut 13 í Reykjavík.

Ráðgjafamiðstöðin Sjónarhóll var stofnuð árið 2003 eftir að efnt var til landssöfnunar undir yfirskriftinni Fyrir sérstök börn til betra lífs sem náði hápunkti með skemmtiþætti í sjónvarpi 8. nóvember. Alls söfnuðust rúmar 63 milljónir sem voru nýttar í að kaupa húsnæði við Háaleitisbraut 13 og opna þar ráðgjafarmiðstöð.

Skrifstofa Sjónarhóls

Sjónarhóll, Háaleitisbraut 13

Sjónarhóll er með skrifstofur á Háaleitisbraut 13 í Reykjavík.

 

Starfsfólk Sjónarhóls

Ráðgjafar Sjónarhóls eru fagmenntaðir og búa yfir mikilli reynslu þegar kemur að málefnum barna með stuðningsþarfir.

Framkvæmdarstjóri Sjónarhóls

Bóas Valdórsson útskrifaðist sem sálfræðingur árið 2007 og hefur síðan lokið kennaranámi sem og sérfræðiréttindum í klínískri barnasálfræði. Bóas hefur m.a. starfað innan heilbrigðis- og skólakerfisins og sinnt þar bæði kennslu, klínískri vinnu og ráðgjöf. Ásamt því að vera framkvæmdarstjóri Sjónarhóls sinnir Bóas ráðgjöf í málum sem unnin eru á vegum Sjónarhóls.
boas@sjonarholl.is

Ráðgjafar Sjónarhóls

Lára Guðrún Magnúsdóttir útskrifðist sem þroskaþjálfi vorið 1995 og lauk háskólagráðu í almennum málvísindum með áherslu á lestrarvanda, málþroska og fjöltyngi frá Gautaborgarháskóla árið 2005. Lára hefur starfað inni á heimilum, í dagvistunum, í leikskóla og lengst af innan grunnskólans bæði hér á landi sem og í Svíþjóð. Hún er móðir fjögurra barna sem sum hver glíma við meiri áskoranir og hefur því innsýn í hvers það krefst að fylgja því eftir að þeirra þörfum sé mætt.

Sigrún Garcia Thorarensen hefur unnið við stjórnun í grunnskóla auk þess að hafa áður starfað sem náms- og starfsráðgjafi. Hún er með MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf og kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskólum.

Sigurður Hólm Gunnarsson er menntaður iðjuþjálfi, sáttamiðlari og vefmiðlari. Sigurður hefur lengi starfað í málaflokki barna. Hann var forstöðumaður á Skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík frá 2010 til 2022. Heimilið var á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og var fyrir 13-18 ára ungmenni sem þurftu tímabundið að búa utan heimilis af ýmsum ástæðum. Sigurður hefur einnig unnið sjálfstætt sem ráðgjafi.

Stofnfélög

ADHD samtökin
Markmið ADHD samtakanna er að börn og fullorðnir með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir mæti skilningi alls staðar í samfélaginu og fái þjónustu sem stuðlar að félagslegri aðlögun þeirra, möguleikum í námi og starfi og almennt bættum lífsgæðum.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra var stofnað árið 1952 og hefur frá upphafi verið frumkvöðull í þjónustu við fötluð börn og ungmenni. Meginmarkmið félagsins er að stuðla að aukinni orku, starfshæfni og að velferð fólks með fötlun, þá einkum barna.

Umhyggja – félag langveikra barna
Umhyggja er félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra. Í félaginu starfa foreldrar langveikra barna og fagfólk innan heilbrigðiskerfisins.

Þroskahjálp
Landssamtökin Þroskahjálp voru stofnuð haustið 1976 í því skyni að sameina þau félög, sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með það að markmiði að tryggja því fullt jafnrétti á við aðra.

Aðrir samstarfsaðilar

Á Háaleitisbraut 13 starfa ýmis samtök sem Sjónarhóll starfar náið með. Fyrir utan stofnsamtökin má nefna:

Einhverfusamtökin
Samtökin voru stofnuð árið 1977. Í þeim eru einhverfir, foreldrar, aðstandendur, fagfólk og öll þau sem áhuga hafa á velferð og málefnum fólks á einhverfurófi (autism spectrum). Starfsemi samtakanna beinist meðal annars að því að bæta þjónustu við einhverfa, standa vörð um lögbundin réttindi þeirra og stuðla að fræðslu um málefni fólks á einhverfurófi.

Tölvumiðstöð
TMF Tölvumiðstöð er sjálfstæð stofnun þar sem boðið er upp á ráðgjöf, fræðslu og námskeið á sviði upplýsingatækni.

Stjórn Sjónarhóls

Stjórn Sjónarhóls skipa fulltrúar allra stofnfélaga auk fulltrúa frá ÖBÍ.

Hrannar Björn Arnarson, formaður

Árný Ingvarsdóttir, meðstjórnandi

Eva Þengilsdóttir, meðstjórnandi

Unnur Helga Óttarsdóttir, meðstjórnandi

Vilmundur Gíslason, meðstjórnandi