Sjónarhóll-ráðgjafarmiðstöð hefur fengið leyfi frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála til að veita félagslega ráðgjöf í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þetta er ákveðin viðurkenning á starfsemi Sjónarhóls og hvatning til að halda áfram að þróa ráðgjafarþjónustu fyrir fjölskyldur barna með stuðningsþarfir.
Í 4. grein stofnsamþykkta Sjónarhóls-ráðgjafamiðstöðvar segir að tilgangur Sjónarhóls sé að:
- Styðja fjölskyldur í hlutverki sínu.
- Kynna fjölskyldum réttindi sín varðandi þjónustu samfélagsins.
- Aðstoða fjölskyldur við að fá þjónustu.
- Greiða fjölskyldum leið að upplýsingum um viðkomandi sjúkdóm, fötlun eða annað frávik.
- Efla innbyrðis tengsl fjölskyldna sem búa við svipaðar aðstæður.
- Koma á samvinnu allra þeirra sem málum fjölskyldunnar tengjast.
Um starfsemi Sjónarhóls:
Í starfi Sjónarhóls hefur frá upphafi verið lögð áhersla á að mikilvægt sé að mæta þörfum barna sem hafa skilgreindar stuðningsþarfir. Hefur starfsfólk Sjónahóls því unnið markvisst að því síðustu 20 ár að tengja saman þjónustuveitendur og veita ráðgjöf um hvar þjónustu er að finna.
Í því felst m.a. að vekja athygli á málum þegar skortur er á þjónustu og benda viðeigandi aðilum á ef þjónusta og stuðningur er ekki að skila sér til þeirra sem á þurfa að halda. Fyrst og fremst hafa það verið foreldrar sem leitast hafa eftir aðstoð hjá Sjónarhóli en margar stofnanir hafa haft það sem hluta af sínum ráðleggingum að hvetja foreldra til að leita ráðgjafar hjá Sjónarhóli.
Frá upphafi hefur ráðgjöf Sjónarhóls verið gjaldfrjáls. Ráðgjöfin er veitt í síma, með tölvupósti, viðtölum eða á fundum með fleiri aðilum ef þörf er á.
Starfsemi á árinu 2023:
Á síðasta starfsári hafa ráðgjafar Sjónarhóls sinnt rúmlega 300 erindum frá fjölskyldum barna víðsvegar um landið í fjölbreyttum málum. Ráðgjöfin hefur verið veitt í síma, með tölvupósti, viðtölum eða á fundum með fleiri aðilum ef þörf hefur verið á.
Heimasíða Sjónarhóls hefur verið endurnýjuð á árinu og má þar nú finna nýjan fræðsluvef með fjölbreyttum upplýsingum fyrir foreldra og aðstandendur barna með stuðningsþarfir. Stafsfólk Sjónarhóls hefur einnig tekið þátt í að koma á fót og starfa sem hluti af Landsteymi á vegum Menntamálastofnunar þar sem ráðgjöf og stuðningur er veittur í flóknum nemendamálum á öllum skólastigum.