Farsældarsáttmálinn er verkfæri sem gerir foreldrum og öðrum sem koma að degi barnsins kleift að ræða sín á milli og setja niður ákveðin viðmið eða gildi sem þeim finnast mikilvæg til þess að styðja við þroska og farsæld allra barna í samfélaginu.
Farsældarsáttmálinn kom út haustið 2023 eftir viðamikið samtal við foreldra og skólakerfið um land allt þar sem fram kom ákall um endurvakningu foreldrastarfs og valdeflingu foreldra.
Í honum er að finna tillögur að umræðuefni m.a. um:
- Samskiptum
- Viðmið í uppeldi
- Skjá- og netnotkun
- Samstarf foreldra
- Farsæld barna
Rannsóknir hafa sýnt fram á forvarnargildi samstíga foreldrahóps auk þess sem foreldrar gegna mikilvægu hlutverki í að styðja við og stuðla að góðri menningu innan barnahópsins. Þá er ómetanlegur stuðningur fyrir foreldra að hafa breitt tengslanet í öðrum foreldrum í nærsamfélaginu, þeir taka upplýstari ákvarðanir og geta verið öflug rödd umbóta. Þannig geta þeir unnið gegn einelti og fordómum og stuðlað að auknum skilningi og umburðalyndi milli fjölbreyttra hópa.
Hér eru góð ráð þegar kemur að því að ræða saman um hvað á að fara í Farsældarsáttmálann í samfélaginu okkar:
- Tölum um einföldu málin fyrst. Byrjum að ræða atriði sem við getum komið okkur saman um.
- Eitt í einu. Höldum okkur við umræðuefnið og komumst að niðurstöðu áður en haldið er í næsta.
- Jákvætt orðaval. Áhersla á hvað við viljum fremur en hvað við viljum ekki.
- Verum í núinu. Ræðum núverandi áskoranir út frá þeim sem eru mættir, frekar en þeim sem ekki eru mættir.
- Hvað eigum við sameiginlegt? Einblínum á það sem við eigum sameiginlegt fremur en núningspunkta.
Í verkfærakistu Farsældarsáttmálans er að finna efni sem hjálpar til við fyrirlögn hans. Þar má finna plakat, umræðuefni, leiðbeiningar fyrir stjórnendur vinnustofu ásamt öðru efni sem tengist Farsældarsáttmálanum.