Hvað er stuðningsáætlun og hvers vegna er mikilvægt að skrifleg og skýr stuðningsáætlun sé fyrir hendi?
Þegar verið er að vinna að því að samræma störf ólíkra aðila s.s. foreldra, skólastarfsfólks og heilbrigðisstarfsfólks í málefnum barns getur verið mjög gagnlegt að setja saman einfalda stuðningsáætlun til að ramma inn þá þjónustu og þau úrræði sem leggja á áherslu á.
Stuðningsáætlun þarf ekki að vera flókin eða umfangsmikil en æskilegt er að hún sé skrifleg og að skýrt sé hvert hlutverk hvers og eins er, hversu lengi hún eigi að vera í gildi og hvenær eigi að endurskoða hana. Almennt er litið svo á að stuðningsáætlun taki breytingum og þróist í samræmi við framfarir og framvindu í þroska barns og út frá því hvernig afmarkaðir þættir hennar eru að ganga.
Hægt er að styðjast við stuðningsáætlun í fjölbreyttu samhengi og tekur umfang hennar og útfærsla eingöngum mið af því hversu umfangsmikill eða flókinn vandinn er sem um ræðir.
Stuðningsáætlanir samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna
Ef samþætting, samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, er fyrir hendi skal málstjóri stofna og stýra stuðningsteymi og um leið tryggja að gerð sé skrifleg stuðningsáætlun. Stuðningsáætlun felur í sér skriflega samantekt á eftirfarandi atriðum eftir því sem við á:
1. Mat og/eða greiningu á þörfum barns.
2. Markmið með þjónustu og samþættingu einstakra þátta hennar á öllum þjónustustigum.
3. Hlutverk hvers þjónustuveitanda og annarra eftir atvikum.
4. Hvernig árangur verði metinn.
5. Tímabil sem áætlun er ætlað að vara.
Stuðningsteymi
Í lögum um samþættingu þjónustu kemur skýrt fram að stuðningsteymi er vettvangur þar sem þjónustuveitendur og eftir atvikum þeir sem veita tilteknu barni almenna þjónustu eiga samstarf um samþættingu þjónustunnar.
- Málstjóri skal stofna stuðningsteymi þar sem sitja fulltrúar þjónustuveitenda sem veita barni þjónustu. Heimilt er að bjóða þeim sem veita almenna þjónustu í þágu farsældar barns að taka sæti í stuðningsteymi ef þörf krefur.
- Stuðningsteymi skal hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi og rækja hlutverk sitt í samstarfi og samráði við foreldra og barn.
- Stuðningsteymi skal svo fljótt sem verða má gera skriflega stuðningsáætlun fyrir barnið þar sem þjónusta sem er veitt í þágu farsældar barnsins er samþætt.
- Stuðningsteymi hefur reglubundna samvinnu um framkvæmd stuðningsáætlunar þann tíma sem áætlun varir. Hana ber að endurmeta og endurnýja eftir því sem þörf krefur. Áður en barn verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um samþættingu þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri.
Sjá nánar:
- Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna
(Sjá til dæmis: 11. gr., 12. gr. 21. gr. og 22. gr.) - Fræðsluvefur Sjónarhóls