Um skólaforðun
Hugtakið skólaforðunn vísar í þá stöðu þegar barn eða ungmenni mætir illa eða ekki neitt í skóla. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að barn eða ungmenni forðast það mæta í skóla og því mikilvægt að foreldrar og skóli vinni saman að uppbyggilegri lausn.
Mikilvægt er að huga að sjónarmiðum og upplifun barns og ungmennis þegar verið er að kortleggja ástæður skólaforðunnar.
Hægt er að hafa eftirfarandi til viðmiðunar varðandi verkferla og mat á umfangi á skólasókn og viðbrögðum í framhaldi af því þegar nemandi hefur mætt lítið í skólann.
Í skýrslu um skólasókn frá 2019 var lagt upp með eftirfarandi verkferla í grunnskólum Reykjavíkur. Miðað var við að í upphafi hvers skólaárs séu allir nemendur með fullnægjandi skólasókn. Óstundvísi/seinkoma er eitt fjarvistarstig og óheimil fjarvist er tvö fjarvistarstig.
ÞREP 1 (10 fjarvistarstig): Umsjónarkennari ræðir við nemandann og hefur samband við foreldra.
ÞREP 2 (20 fjarvistarstig): Umsjónarkennari boðar foreldra til fundar ásamt nemanda, náms- og starfsráðgjafa og skólastjóra eða fulltrúa hans.
ÞREP 3 (30 fjarvistarstig): Fundur með skólastjórnanda / fulltrúa hans, umsjónarkennara, nemanda og foreldrum.
ÞREP 4 (40 fjarvistarstig): Fundur með skólastjórnanda / fulltrúa hans, umsjónarkennara, nemanda, foreldrum og fulltrúa skólaþjónustu (viðbragðsteymi skólaþjónustu).
ÞREP 5 (60 fjarvistarstig): Eftir umfjöllun í nemendaverndarráði sendir skólastjórnandi tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur. Málið unnið skv. verklagsreglum skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs um ábyrgð og skyldur skólasamfélagsins vegna nemenda með fjölþættan vanda.
Mælst er til þess að á öllum þrepum sé gætt jafnræðis og samræmis í viðbrögðum. Taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins. Stuðla ber að góðu samstarfi og samráði milli foreldra og skóla um mál nemanda og afla samþykkis þeirra þegar við á. Gæta ber að rétti foreldra til upplýsinga.