Með tilkomu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, farsældarlaganna svokölluðu, er lögð áhersla á að styrkja grunnþjónustu í nærumhverfi allra barna.
Þau börn sem þurfa einstaklingsmiðaða þjónustu hafa nú aðgang að tengiliðum og málstjórum farsældar. Þeim er ætlað að leiða foreldra í gegnum þann frumskóg sem kerfið getur verið. Hlutverk þessara aðila er vel skilgreint og þeir eiga að hafa svigrúm og tíma til að sinna hlutverki sínu í þágu farsældar barns.
Samþætting þjónustu í þágu farsældar barns er fyrir þau börn sem þurfa einstaklingsmiðaðan stuðning sem krefst aðkomu ólíkra kerfa.
Samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (farsældarlögin) er megintilgangur laganna að börn og fullorðnir hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Ef samþætting, samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, er fyrir hendi skal málstjóri stofna og stýra stuðningsteymi og um leið tryggja að gerð sé skrifleg stuðningsáætlun.
Þannig er farsældarlögunum ætlað að bæta þjónustu við börn og fjölskyldur svo þau fái notið þeirrar aðstoðar sem þau eiga rétt á um leið og þess gerist þörf með því að tryggja samstarf allra er koma að þjónustu við börn.
Stigskipting þjónustu
Þjónustu við börn er skipt í þrjú stig
Fyrsta stig: Grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum. Snemmtækur stuðningur er veittur og honum fylgt eftir á markvissan hátt. Tengiliðir vinna mál barna á fyrsta stigi, t.d. ung- og smábarnavernd, leikskóli, grunnskóli, almenn heilbrigðisþjónusta o.fl..
Annað stig: Einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns. Málstjórar vinna mál barna á öðru stigi.
Dæmi: Sérkennsla í skóla, einstaklingsbundinn stuðningur við barn, færniþjálfun o.fl.
Þriðja stig: Einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns. Málstjórar vinna mál barna á öðru og þriðja stigi.
Dæmi: Innlögn á sjúkrahús eða meðferðarstofnun, greining hjá sérfræðingum t.d. á Ráðgjafar- og greiningarstöð, barnaverndarþjónusta o.fl.
Leitast skal við að veita sérhæfðari stuðning á grundvelli stuðningsáætlunar um samþætta þjónustu og eftirfylgd.
Kynningarmyndband um farsældarlögin
Frekari upplýsingar um farsæld barna og samþættingu þjónustu
- Lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna (althingi.is)
- Farsæld barna (farsaeldbarna.is)
- Þjónusta í þágu farsældar barna | Barnaverndarstofa (bofs.is)
- Samþætting þjónustu í þágu farsældar barna (bofs.is)
- Leiðbeiningar um innleiðingu á lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna | Leiðbeiningar um innleiðingu | Barnaverndarstofa (bofs.is)
- Breytingar í þágu barna – samþætting þjónustu.pdf (stjornarradid.is)
- Ný löggjöf um samþættingu í þágu barna – Samband íslenskra sveitarfélaga