Háaleitisbraut 13, 108 Reykjavík

Símatími 535-1900 | mán – fim frá 9:00-11:00

Einstaklingsnámsskrá og einstaklingsáætlun

Gerð er einstaklingsnámskrá fyrir nemendur sem þurfa á sérstökum úrræðum að halda, víkja frá aðalnámskrá í flestum eða öllum námsgreinum og þurfa verulegar breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðstæðum.
Seinast uppfært: 14.05.2024
Forsíða 9 Fræðsla 9 Einstaklingsnámsskrá og einstaklingsáætlun

Einstaklingsnámskrá

Gerð er einstaklingsnámskrá fyrir nemendur sem þurfa á sérstökum úrræðum að halda, víkja frá aðalnámskrá í flestum eða öllum námsgreinum og þurfa verulegar breytingar á námsmarkmiðum, námsefni, námsaðstæðum og/eða kennsluaðstæðum.

Námskráin er mikilvæg meðal annars til að mæta menntunarlegum þörfum einstakra nemenda með það markmið að tryggja réttindi, virka þátttöku og hámarksárangur þess nemanda sem hún er gerð fyrir. Námskráin tekur til námslegra, félagslegra og annarra þátta sem nemandinn þarf aðstoð við. Í henni koma fram sértækar upplýsingar um nemandann, langtímanámsmarkmið, námsefni, námsaðstæður og önnur sérstök úrræði sem nemandinn þarfnast. Þar kemur einnig fram hvernig skólinn ætlar að styðja nemandann til félagslegrar þátttöku og virkni í skólasamfélaginu.

Einstaklingsnámskrá er unnin í samstarfi við foreldra og í samráði við nemandann eins og kostur er. Hún er borin undir og samþykkt af foreldrum og nemanda þegar það á við, í upphafi hvers skólaárs. Námskráin er í reglulegri endurskoðun.

Einstaklingsáætlun

Nemendur sem víkja frá í einstökum námsgreinum, í hegðun eða félagslega fá einstaklingsáætlun þar sem gerð er grein fyrir þeim markmiðum sem þeir þurfa að ná. Einstaklingsáætlun er gerð í þeim námsgreinum þar sem aðlaga þarf nám sérstaklega að nemanda. Áætlun er gerð fyrir nemendur þegar þörf er á að breyta námsmarkmiðum og aðlaga námsefni sérstaklega.

Áætlanir eru settar fram í einni eða fleiri námsgreinum, fyrir styttri tímabil í senn en í einstaklingsnámskrá. Eftir hvert tímabil er einstaklingsáætlun endurmetin. Áætlunin felur meðal annars í sér hvernig nemandi á að ná markmiðum sínum, skipulag á því hvernig náminu skuli háttað, hvernig námsmat fer fram og farið er yfir aðbúnað og kannað hvort aðstaða sé við hæfi nemandans, t.d. varðandi notkun hjálpartækja.

Árangur er metinn jafnt og þétt yfir skólaárið með fjölbreyttum matsaðferðum og í kjölfarið er áætlunin endurskoðuð. Einstaklingsáætlun er unnin í samráði við nemandann eins og kostur er

Fyrir nemendur sem stunda nám sitt að fullu eða að hluta eftir einstaklingsnámskrá í samræmi við metnar sérþarfir eru einkunnirnar A, B, C eða D stjörnumerktar * og skal gera grein fyrir frávikum frá námskrá í hverju tilviki fyrir sig. Með stjörnumerkingu er enn betur tryggt að nemendur fái námsframboð við hæfi í framhaldsskóla.

Gagnlegir tenglar