Eftirfarandi ályktun um frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni var send 28. september 2023. Í sumum tilfellum er frístundaþjónustan, sem er lögboðin, ýmist ekki í boði eða er ófullnægjandi. Undir ályktunina rita Umhyggja – félag langveikra barna, Landssamtökin Þroskahjálp og Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð.
Ályktun Umhyggju, Sjónarhóls og Þroskahjálpar varðandi sértæka frístundaþjónustu
Dagsetning: 28.09.2023
Frá: Umhyggju – félagi langveikra barna, Landssamtökunum Þroskahjálp og Sjónarhóli ráðgjafarmiðstöð
Til: Guðmundar Inga Guðbrandssonar félags- og vinnumarkaðsráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Efni: Frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni skv. 16. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir
Undirrituð samtök vilja koma á framfæri athugasemdum og lýsa yfir áhyggjum sem lúta að framkvæmd sveitarfélaga landsins á lögbundinni sértækri frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni. Til félaganna hafa leitað fjölskyldur þessa hóps og óskað eftir aðstoð og ráðgjöf vegna þess að erfiðlega hefur gengið að fá lögbundna frístundaþjónustu frá sveitarfélögum.
Samkvæmt 16. gr. laga nr. 38/2018 skulu sveitarfélög bjóða fötluðum börnum og ungmennum upp á frístundaþjónustu m.a. eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur. Í frumvarpi því sem varð að fyrrgreindum lögum er tekið fram að fötluð skólabörn standi ekki jöfnum fæti á við jafnaldra sína og hafi ekki nægilegi færni til að sjá um sig sjálf að loknum skóladegi. Einnig er tekið fram að sértæk frístundaþjónusta skuli að jafnaði byggjast á metnum stuðningsþörfum fatlaðra barna og vera hluti af einstaklingsbundinni þjónustuáætlun viðkomandi. Gert er ráð fyrir að fötluðum börnum sé veitt sú þjónusta sem henti hverju og einu barni. Tilgangurinn sé m.a. að jafna aðstöðu foreldra á vinnumarkaði þannig að þeir geti unnið fullan vinnudag og þurfi ekki að ljúka vinnudegi þegar hefðbundnum skóladegi lýkur.
Ljóst er að fötluð börn og ungmenni eiga rétt á sértækri frístundaþjónustu samkvæmt lögum nr. 38/2018. Hins vegar hefur borið á því að sveitarfélög séu ekki að veita fullnægjandi þjónustu sem bitnar harkalega á viðkvæmum hópi samfélagsins þ.e. fötluðum börnum, ungmennum og fjölskyldum þeirra. Foreldrar fatlaðra barna eru nauðbeygðir að skipuleggja vinnudaga sína í samræmi við skóladag barna sinna sem veldur ómöguleika við að stunda fulla vinnu, en slíkt gengur þvert á markmið 16. gr. áðurnefndra laga.
Einnig vilja undirrituð samtök benda á lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021, þar sem kveðið er á um skyldur þjónustuveitenda að bregðast við þegar vísbendingar eru um að þörfum barns sé ekki mætt með fullnægjandi hætti. Ljóst er að þar sem að sértæk frístundaþjónusta er ekki veitt er verið að bregðast því að tryggja farsæld barna. Borið hefur á misbresti á því að upplýsingar berist til foreldra og/eða barna um rétt þeirra á samfelldri og samþættri þjónustu. Undirrituð samtök velta því fyrir sér hvort ástæðan sé sú að viðeigandi þjónusta, í þessu tilfelli sértæk frístundaþjónusta, sé ekki í boði af hálfu þjónustuveitanda?
Við skoðun á þeim málum sem undirrituðum samtökum hafa borist, þar sem frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni er ekki í boði eða er ófullnægjandi, er ýmist fullyrt af hálfu talsmanna sveitarfélaga að ekki sé til fjármagn til að veita þessa nauðsynlegu þjónustu eða ómögulegt sé að fá starfsfólk til að sinna henni. Skort á starfsfólki má oft rekja til þess að þau launakjör sem boðið er upp á eru of lág. Vert er að skoða hvort fjármagn sem veitt er í lögbundna þjónustu sé notað í önnur verkefni. Sé niðurstaðan sú óskum við svara frá ráðherrum og Sambandi íslenskra sveitarfélaga á grundvelli hvers þjónustuveitendur, í þessu tilfelli sveitarfélög, geti neitað að veita lögbundna þjónustu með því að bera fyrir sig fjárskorti. Undirrituð samtök eru öll af vilja gerð til að veita aðstoð, ráðgjöf eða frekari upplýsingar sé óskað eftir slíku.
Umhyggja – félag langveikra barna, Landssamtökin Þroskahjálp og Sjónarhóll ráðgjafarmiðstöð